Lög Félags dönskukennara á Íslandi
Samþykkt á aðalfundi félagsins 16. feb. 2001 


l. gr.

Nafn félagsins er Félag dönskukennara. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er:
a) að efla fagvitund dönskukennara.
b) að vera vettvangur kynningar og umræðna meðal dönskukennara.
c) að vinna að bættri aðstöðu til dönskukennslu á Íslandi.
d) að vera tengiliður milli dönskukennara og fræðslu- og skólayfirvalda.
e) að koma á og viðhalda tengslum við önnur sambönd tungumálakennara á Íslandi og erlendis.
f) að hafa forgöngu um námskeið og aðra fræðslustarfsemi fyrir dönskukennara.
g) að leita eftir styrkjum handa dönskukennurum til náms og endurmenntunar innanlands og utan.
h) að leita samstarfs við innlenda og erlenda bókaútgefendur og aðra aðila um kennsluefni og kennslutæki.

3. gr.
Öllum dönskukennurum er heimil innganga í félagið.

4. gr.
Stjórn félagsins skipa 7 menn; formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og 3 meðstjórnendur. Skulu þeir kosnir á aðalfundi, formaður sérstaklega. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skulu stjórnarmenn skipta með sér verkum. Enginn má sitja lengur i stjórn, í senn, en 5 ár en taki sitjandi stjórnarmaður að sér formennsku í félaginu skal þó heimilt að framlengja stjórnarsetu hans úr 5 í 7 ár.

5. gr.
Stjórn félagsins getur falið einstökum félagsmönnum eða hópi þeirra störf á vegum félagsins. Skal það gert skriflega.

6. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í febrúar ár hvert. Hann skal boða bréflega og eða rafrænt og skulu fundarboðin póstlögð eigi síðar en 10 dögum fyrir fundinn. Aðalfundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað. Kosningarétt og kjörgengi hafa allir skuldlausir félagar.
Dagskrá aðalfundar:
a) Skýrsla formanns.
b) Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
c) Lagabreytingar.
d) Kosning formanns, annarra stjórnarmanna og tveggja endurskoðenda.
e) Félagsgjöld ákveðin.
f) Önnur mál.

7. gr.
Reikningsár félagsins miðist við áramót almanaksárs.

8. gr.
Breytingar á lögum félagsins má aðeins gera á aðalfundi. Breytingartillögur skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 1. desember og skal þeirra getið í fundarboði. Einfaldan meirihluta greiddra atkvæða þarf til að samþykkja lagabreytingar.